Búist er við að Arababandalagið muni á fundi sínum í dag lýsa yfir stuðningi við flugbann í Líbíu til að skapa þrýsting á Muammar Gaddafi, einræðisherra landsins. Aðalritari bandalagsins, Amr Mussa, lagði til flugbannið og sagðist í dag vilja að það tæki þátt í að koma því á og viðhalda því ásamt fleiri alþjóðlegastofnunum meðal annars Sameinuðu þjóðunum.
Að sögn Hishan Youssef, starfsmannastjóra Mussa, verður fulltrúum
Líbíu, sem er meðlimur í Arababandalaginu, meinaður aðgangur að
fundinum. Þar munu utanríkisráðherrar arabaríkjanna og fulltrúar þeirra
í bandalaginu ræða „þróun ástandsins í Líbíu til að finna leiðir til að
binda enda á blóðsúthellingarnar,“ að sögn Youssef.
Mussa sagði í viðtali við Der Spiegel í dag að aðgerðum bandalagsins myndi felast „stuðningur við líbísku þjóðina í frelsisbaráttu þeirra gegn stjórn sem sýnir sífellt meira yfirlæti.“
Sendinefnd frá Sameinuðu þjóðunum er væntanleg til Líbíu í dag en hún á að leggja mat á þörf landsins fyrir mannúðaraðstoð að sögn varautanríkisráðherra Líbíu. Segir hann að nefndin muni fara á spítala og athuga lyfjabirgðir og vistir. Hann minntist ekki á að Abdul Ilah Khatib, fyrrum utanríkisráðherra Jórdaníu, væri væntanlegur en hann er á leið þangað á vegum Sameinuðu þjóðanna til að vekja athygli á árásum Gaddafis á mótmælendur.