Skoskir fiskimenn hafa lýst miklum vonbrigðum sínum yfir að þriggja daga makrílviðræðum í Osló lauk án niðurstöðu. Fréttavefurinn fishnews.eu segir að Skotar, Norðmenn og Evrópusambandið kenni „óraunhæfum kröfum og ábyrgðarlausri framkomu“ Íslendinga og Færeyinga um.
Íslendingar hafa einhliða gefið út aflaheimildir upp á nærri 155.000 tonn en Færeyingar eiga eftir að ákveða makrílkvóta. Þeir gáfu út 85.000 tonna kvóta í fyrra.
„Við erum ákaflega vonsviknir yfir því að fullkomlega óraunsæ og óbilgjörn afstaða Íslands og Færeyja í þessum viðræðum hafi þýtt að ekki náðist niðurstaða. ESB og Noregur lögðu fram raunverulegar og innihaldsríkar tillögur til þess að ná lausn, en þeim var hafnað,“ sagði Ian Gatt, framkvæmdastjóri félags uppsjávarfiskimanna í Skotlandi.
Hann sagði að ákvörðun Íslendinga og Færeyinga um að skammta sér allt of stórar veiðiheimildir sé „hámark ábyrgðarleysisins“ og geti skaðað makrílstofninn sem hafi verið stjórnað og nýttur á sjálfbæran hátt af skoska flotanum.
„Það er mikilvægara nú en nokkru sinni að ESB grípi til áhrifaríkra refsiaðgerða gegn Íslandi og Færeyjum, þar á meðal að fresta aðildarviðræðum Íslands við ESB.
ESB verður að verja réttindi þeirra ríkja sem nú þegar eru í sambandinu og tryggja það að fiskistofnar sem við og fyrirtæki okkar stólum á séu verndaðir fyrir ríkjum sem eru fyrir utan. Þar eð þetta er ef til vill dýrmætasti fiskistofn ESB þá er það bara rétt og sanngjarnt að lausn á þessari deilu sé forsenda fyrir því að taka Ísland inn í ESB“
Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri skoska sjómannafélagsins, hefur varað við því að það að ekki náðist samkomulag við Íslendinga og Færeyinga um makrílveiðar á þessu ári muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir uppsjávar- og bolfiskveiðar Skota á þessu ári.