Japanskir tæknifræðingar vinna nú að því að draga úr þrýstingi í öðrum kjarnakljúf í kjarnorkuverinu í borginni Fukushima, en sprenging varð í því í gær. Yfirvöld segja að neyðarkælikerfið í kjarnakljúf númer 3 hafi gefið sig. Óttast menn að hann muni bræða úr sér.
Svipað vandamál leiddi til sprengingar í kjarnakljúf 1, að því er segir á vef BBC. Búið er að flytja um 170.000 íbúa, sem búa í nágrenni við kjarnorkuverkið, á brott.
Japönsk stjórnvöld hafa reynt að draga úr áhyggjum manna af geislavirkni í námunda við verið. Forsvarsmenn kjarnorkuversins, Tepco, segja hins vegar að geislavirknin mælist nú vera yfir leyfilegum mörkum.
Mörg hundruð a.m.k. létu lífið á föstudag þegar jarðskjálfti varð við norðausturhluta Japans sem leiddi til þess að mikil flóðbylgja skall á land.
Björgunarstarf er í fullum gangi og aðstoða hermenn björgunarsveitir á vettvangi. Alls munu um 100.000 taka þátt í björgunaraðgerðunum.