Palestínsk yfirvöld fordæmdu í dag að Ísrealar leggi blessun sína yfir nýjar landnemabyggðir á Vesturbakkanum. Ísealar tilkynntu í dag að ákveðið hefði verið að heimila byggingu nokkur hundruð húsa í Gush Etzion, Maale Adumim, Ariel og Kiryat en það eru fjórar stærstu landnemabyggðirnar á Vesturbakkanum.
Nabil Abu Rudeina, talsmaður Mahmud Abbas, forseta Palestínu, sagði ákvörðunina óásættanleg mistök sem myndi valda miklum skaða og verulegum vandamálum.
Robert Serry, fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Miðausturlanda, fordæmdi einnig ákvörðunina.
„Herra Serry er uggandi eftir að hafa séð fréttir um tilkynningu 500 nýrra húseininga á hinum hernumda Vesturbakka,“ sagði Richard Miron, talsmaður Serry í viðtali við AFP. „Frekara landnám er ólöglegt og ákvörðun sem þessi er ekki hvetjandi fyrir tilraunir til að hefja samningaviðræður að nýju og koma á friði milli Ísraela og Palestínumanna.“
Ákvörðunin var tekin sólarhring eftir að fimm Ísraelar, tveir fullorðnir og þrjú börn, voru stungin til bana á heimilum sínum í landnemabyggð skammt frá Nablus.