Ísraelsk stjórnvöld hafa gefið leyfi því að mörg hundruð ný hús fyrir gyðinga verði byggð á Vesturbakkanum. Embættismenn segja að ráðherranefnd hafi samþykkt þetta á fundi sínum í gær.
Talsmaður stjórnvalda segir framkvæmdirnar muni eiga sér stað á svæðum sem Ísraelar búist við að halda eftir náist friðarsamkomulag við Palestínumenn, segir á vef breska útvarpsins.
Stjórnvöld í Palestínu hafa hins vegar fordæmt þessa ákvörðun. „Þessi ákvörðun er röng og óviðeigandi og mun skapa vandamál,“ segir Nabil Abu Rdainah, talsmaður Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínu.
Aðfararnótt laugardags var fimm manna gyðingafjölskylda myrt í landnemabyggð á Vesturbakkanum. Umfangsmikil leit er hafin að morðingjunum sem stungu þrjú börn, þar á meðal kornabarn, og foreldra þeirra til bana er þau voru sofandi heima hjá sér.
Málið hefur vakið gríðarlega mikla reiði í Ísrael og eru margir Palestínumenn orðlausir á því sem hefur gerst.
Ísraelsk yfirvöld gruna að palestínskir uppreisnarmenn hafi staðið á bak við morðin.