Kjarnorkuslys ekki yfirvofandi í Fukushima

Reyk leggur frá Fukushima-verinu.
Reyk leggur frá Fukushima-verinu. Reuters

Sérfræðingar telja að kjarnorkuslys sé ekki yfirvofandi í Fukoshima Daiichi-kjarnorkuverinu þar sem þeir búast ekki við að kjarnakljúfar versins bræði úr sér. Brugðið hefur verið á það ráð að veita sjó á kjarnakljúfana til að kæla þá til að koma í veg fyrir að þeir bræði úr sér.

Frá þessu segir á vef CNN.

Sérfræðingar hafa fylgst náið með framvindu mála í Fukushima sem er í norðaustanverðu Japan og telja þeir að eins og sakir standa séu litlar líkur á að geislun verði svo mikil að stórhætta skapist.

Á meðan unnið hefur verið hörðum höndum við að halda geislun í skefjum og kæla kjarnakljúfana í Fukshima hefur verið lýst yfir neyðarástandi í Onagawa-kjarnorkuverinu en þar munu yfirvöld hafa stjórn á ástandinu og eru kjarnakljúfarnir þar ekki í hættu.

Að sögn sérfræðinga er það örþrifaráð að veita sjó á kjarnakljúfana og bendir til þess að yfirvöld hafi gefið verið sem slíkt upp á bátinn þar sem salt og önnur efni í honum tæri kjarnakljúfinn. Nú sé því einblínt á fólkið og umhverfið í kring. 

Að sögn Geislavarna ríkisins er vandamál nú vegna kælingar á kjarnakljúf númer 3 í Fukushima-1 í Japan. Ástandið telst vera alvarlegt þar til það það hefur verið leyst.

„Upplýsingar gefa þó ekki tilefni til að ætla að þetta leiði til að geislavirk efni losni til umhverfis í umtalsverðu magni, ekki frekar en gerðist fyrir kljúf númer 1. Varað hefur verið við að sprenging geti orðið, en hún er ekki líkleg til að hafa áhrif á sjálfan kjarnakljúfinn. Samanburður á mati Geislavarna við mat annarra norrænna geislavarnastofnana leiðir í ljós að það er sambærilegt,“ segir í frétt á vef Geislavarna ríkisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert