Evrópsk kjarnorkuver verði prófuð

Kjarnorkuverið í Sellafield.
Kjarnorkuverið í Sellafield. Reuters

Austurríkismenn vilja að fram fari prófanir á kjarnorkuverum í Evrópu til að meta hvernig þau stæðu af sér hamfarir á borð við þær sem orðið hafa í Japan. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi í tveimur kjarnorkuverum þar í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju sem riðu yfir landið á föstudag.

Umhverfisráðherra Austurríkis, Nikolaus Berlakovich, sagði að hann myndi hvetja Evrópusambandið til að framkvæma álagspróf í kjarnorkuverum í álfunni og líkti þeim við álagspróf sem sem baknakerfi álfunnar gengust undir í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Segir hann að prófin ættu að taka til öryggis í verunum og virkni kælikerfa og einangrunar kjarnakljúfa í þeim verði jarðskjálfti.

Berlakovich sagði einnig að Evrópa ætti að taka afstöðu sína til kjarnorku til athugunar en austurrísk yfirvöld eru mótfallin notkun kjarnorku við raforkuframleiðslu.

Mun Berlakovich leggja beiðni sína fyrir fund umhverfisráðherra Evrópusambandslandanna sem fram fer í Brussel á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert