Ríkisstjórnir ýmissa Evrópuríkja hafa látið í ljós áhyggjur af því hvaða áhrif náttúruhamfarirnar í Japan hafi á efnahag heimsins.
Fjármálaráðherrar Evrópuríkja hittust í dag í Brussel þar sem rætt var um leiðir til að vernda evruna, en einnig var rætt um áhrif atburðanna í Japan.
Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði að nú yrði kannað hvaða áhrif þeir hefðu á fjármálamarkað. Þeir muni síðan hittast aftur eftir tvær vikur og taka stöðuna.
Japan er þriðja stærsta efnahagsveldi heims á eftir Bandaríkjunum og Kína og hefur því mikil áhrif á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Verð á hlutabréfum í japönskum fyrirtækjum féll í dag og seðlabanki landsins dældi út fé til að reyna að draga úr áhrifunum.