Bahrain fær liðsauka frá Sádi-Arabíu

Fjölmenn mótmæli í Bahrain í dag.
Fjölmenn mótmæli í Bahrain í dag. Reuters

Viðskiptahverfið í Manama, höfuðborg arabaríkisins Bahrain, var í dag undirlögð mótmælendum sem kröfðust lýðræðis. Fréttir herma að Sádi-Arabar búi sig nú undir að senda öryggissveitir til að aðstoða ríkisstjórn Bahrain við að ná taumhaldi á mótmælendum.

Í gær særðust rúmlega 200 manns þegar kom til átaka milli óeirðalögreglu og mótmælenda í Manama. Mótmælendur létu þó ekki deigan síga og héldu áfram í dag. Mikil spenna er í loftinu í Bahrain, en þar voru 7 manns skotnir til bana þegar fyrstu mótmælin hófust um miðjan febrúar.

Bahrain er veigamikil fjármálamiðstöð við Persaflóann. Þúsundir mótmælenda söfnuðust saman á götum úti í viðskiptahverfinu, sem þykir táknmynd auðs og forréttinda, og að sögn vitna virtist sem lögregla hefði yfirgefið svæðið í dag. Ómerkt herþyrla sást þá vofa yfir mótmælendum.

Sádi-Arabía er næsta nágrannaríki Bahrain og tengjast löndin í gegnum King Fahd-hraðbrautina yfir Persaflóa. Stjórnarandstöðuþingmaðurinn Ali al-Aswad segir að ríkisstjórnin hafi óskað eftir hjálp frá sádi-arabískum öryggisveitum sem séu væntanlegar til höfuðborgarinnar til að kveða mótmælin í kútinn. Al-Aswad segir að stjórnarandstaðan líti á aðkomu Sádi-Araba líkt og um erlendan innrásarher væri að ræða og að þannig muni almenningur einnig taka á móti þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert