Áhöfn á bandaríska flugmóðurskipinu Ronald Reagan, sem var á vettvangi í Japan að sinna mannúðarstörfum, varð fyrir sem samsvarar mánaðarlangri geislun frá kjarnakljúfum í Fukushima á innan við klukkustund. Þetta segir The New York Times.
Haft er eftir ónefndum heimildarmanni innan bandarísku ríkisstjórnarinnar að skipið hafi siglt í gegnum geislavirkt ský frá sködduðum kjarnakljúfum í Japan þegar það nálgaðist strendur landsins, en þangað var það komið til að aðstoða eftir jarðskjálftann og flóðbylgjuna í kjölfarið.
Japanir berjast nú við að ná stjórn á ofhitnun í tveimur kjarnakljúfum í kjarnorkuverinu í Fukushima eftir að kælikerfið bilaði í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar. Önnur sprenging varð í kjarnorkuverinu í dag.
Bandarískar herþyrlur sem voru á sveimi í 96 km fjarlægð norður af kjarnakljúfunum urðu fyrir geislavirku ryki sem þurfti að skola af þeim, að sögn Afp. Engin merki voru þó um að hermennirnir um borð fyndu fyrir neikvæðum áhrifum vegna geislunar, að sögn The New York Times. Atvikin sýni hinsvegar að geislavirk efni berist með vindstraumum frá kjarnorkuverinu.