Líf Kínverja verðmætara

Erlendir björgunarmenn í Christchurch taka þátt í minningarathöfninni um þá …
Erlendir björgunarmenn í Christchurch taka þátt í minningarathöfninni um þá sem létust af völdum jarðskjálftans. Reuters

Kínverska sendiráðið á Nýja-Sjálandi fer nú fram á það að hærri bætur verði greiddar til foreldra kínverska stúdenta sem létust í jarðskjálftanum í Christchurch. Talsmaður sendiráðsins, Cheng Lee, segir að stefna Kína um aðeins eitt barn á hver hjón geri það að verkum að missir kínversku foreldranna sé meiri en annarra.

Yfir 60 erlendir stúdentar voru meðal þeirra a.m.k. 166 sem létust. Lík sjö kínverskra stúdenta hafa fundist í CTV byggingunni sem hrundi, og 24 er saknað. Fjölskyldur látinna erlendra ríkisborgara fá bætur frá ný-sjálenska ríkinu sem ætlaðar eru til að greiða m.a. fyrir útförina. „Þú getur ímyndað þér hversu einmana og örvæntingarfull þau eru, ekki aðeins misstu þau ástvini, heldur misstu þau um leið helstu framfærsluleið sína á eldri árum," hefur BBC eftir talsmanna kínverska sendiráðsins, Cheng Lee, um foreldra kínversku stúdentanna.

Hann segir að greiða ætti líf kínversku stúdentanna hærra verði til að „sýna í verki hversu mikilvægir kínverskir stúdentar eru í huga ríkisstjórn Nýja-Sjálands". Menntamálaráðherra Nýja-Sjálands, Steven Joyce, segir að erfitt gæti reynst samkvæmt ný-sjálenskum lögum að greiða sérstakar og hærri bætur til hluta fórnarlambanna en ekki annarra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert