Önnur sprenging hefur orðið í kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan sem laskaðist í flóðbylgjunni í kjölfar jarðskjálftans á föstudag. Embættismenn segja að kjarnakljúfurinn hafi staðið sprenginguna af sér og ekki skemmst.
Sex eru sagðir hafa slasast í sprengingunni. Japanskir fjölmiðlar hafa eftir fyrirtækinu, sem rekur kjarnorkuverið, að kælikerfi annars kjarnaofns hafi bilað.
Japanska sjónvarpið sýndi í nótt að íslenskum tíma myndir sem sýna reyk rjúka upp af byggingu sem hýsir þriðja kjarnakljúfinn verinu í Fukushima. Um sólarhringur leið frá fyrri sprengingunni í verinu, í húsi kjarnakljúfs númer eitt, þar til sú seinni átti sér stað.
Embættismenn hafa reynt að vara við hræðslu vegna hættunnar á enn alvarlegra slysi í kjarnorkuverinu og segja að kjarnakljúfurinn hafi ekki skemmst í sprengingunni í dag. Þá sé ekki útlit fyrir frekari geislun af völdum hennar. Í kjölfar hennar er sjö manns í verinu saknað og þrír slösuðust af völdum sprengingarinnar.
Tæknimenn í verinu hafa barist við að kæla kjarnakljúfana þrjá í Fukushima-verinu frá því kælikerfi þess bilaði í flóðbylgjunni á föstudag. Tugþúsundir manna hafa verið fluttar á brott af stóru svæði í nágrenni versins.