Sprenging heyrðist frá kjarnaofni númer 2 í Fukushima Dai-ichi kjarnorkuverinu í Japan í kvöld.
Áður hafa orðið sprengingar í ofnum 1 og 3. Fyrr í dag sögðu japönsk stjórnvöld að kælikerfið í ofni 2 hefði bilað og eldsneytisstangir hefðu verið óvarðar.
Japönsk stjórnvöld segja, að steypukápan utan um einn kjarnaofninn virðist hafa skemmst. Því sé hugsanlegt að geislavirk efni muni leka úr kjarnorkuverinu. Aukin geislavirkni hefur mælst í Ibaraki milli versins og Tókýó.
Byrjað er að flytja starfsmenn, sem ekki sinna nauðsynlegum björgunarstörfum, brott frá verinu.
Sérfræðingar hafa í dag reynt að kæla kjarnaofnana þrjá í verinu, sem skemmdist þegar flóðbylgja lenti á því eftir jarðskjálftann á föstudag.