Dregur úr geislun á ný

Dregið hefur úr geislun við Fukushima kjarnorkuverið í Japan en geislavirkni við verið jókst mikið í nótt eftir að eldur varð laus í geymslu fyrir geislavirkan úrgang í einum kjarnaofninum.

Aukin geislavirkni mældist í morgun í Tókýó, höfuðborg Japans, sem er í um 250 km fjarlægð frá Fukushima. Geislunin fór þó ekki yfir hættumörk og nú hefur dregið úr henni að nýju að sögn japanskra stjórnvalda. 

Yukio Edano, aðaltalsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar, sagði að aukin geislavirkni fyrr í morgun kunni að hafa stafað af braki eftir sprengingu, sem varð í einum kjarnaofni versins í gær og geislavirk efni virðist ekki komast óhindrað út í andrúmsloftið eins og áður var óttast.  

Sex kjarnaofnar eru í  Fukushima Daiichi kjarnorkuverinu. Sprengingar hafa orðið í fjórum ofnanna og í morgun sagði talsmaður japanska forsætisráðuneytisins, að hitastig hefði hækkað lítillega í hinum ofnunum tveimur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert