Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, segir, að eldur hafi kviknað í geymslu fyrir notað kjarnorkueldsneyti í Fukushima kjarnorkuverinu í Japan í nótt og við það hafi geislavirk efni komist út í andrúmsloftið.
„Japönsk stjórnvöld tilkynntu IAEA í morgun klukkan (3:50) að eldur væri laus í geymslu fyrir kjarnorkuúrgang í kjarnaofni fjögur í Fukushima Daiichi kjarnorkuverinu og að geislavirkni færi beint út í andrúmsloftið," sagði í tilkynningu frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni. IAEA hefur nú eftir japönskum stjórnvöldum að búið sé að slökkva eldinn.
Japönsk stjórnvöld tilkynntu IAEA einnig um sprengingu, sem varð í kjarnaofni 2 klukkan 6:20 á þriðjudagsmorgun að japönskum tíma og talið sé að um hafi verið að ræða vetnissprengingu.
IAEA segist fylgjast grannt með þróun mála.
Kínversk stjórnvöld segjast hafa miklar áhyggjur af kínverskum þegnum í Japan. Eru áform uppi um að flytja Kínverja frá svæðunum, sem verst urðu úti í náttúruhamförunum á föstudag.
Ríkisflugfélag Kína tilkynnti í morgun, að flugferðum til Japans, þar á meðal til Tókýó, hefði verið fækkað. Ástæðan væri þó frekar að hætta væri á eftirskjálftum en vandamálin, sem eru í kjarnorkuverinu norður af höfuðborginni.
Naoto Kan, forsætisráðherra Japans, gagnrýndi harðlega stjórnendur kjarnorkuversins fyrir að veita ekki upplýsingar um stöðuna. Hafði Kyodo fréttastofan eftir forsætisráðherranum, að í sjónvarpsfréttum hefði komið fram að sprenging hefði orðið í kjarnaofni í verinu en tilkynning hefði ekki borist til skrifstofu forsætisráðherrans fyrr en klukkutíma síðar.
„Hvað í andsk. er eiginlega að gerast?" var haft eftir Kan.
Kyodo sagði, að einn af fréttamönnum fréttastofunnar hefði heyrt ummæli Kans á fundi, sem hann átti með stjórnendum raforkufyrirtækisins TEPCO, sem rekur kjarnorkuverið.
Ekki er ljóst hvaða sprengingu forsætisráðherrann var að tala um en sprengingar hafa orðið í fjórum kjarnaofnum af sex í verinu, þar af tvær sprengingar í gærkvöldi og nótt.
Íbúar í þremur nágrannahéröðum Fukushima keppast nú við að taka á móti fólki sem flýr undan geisluninni. Fólk hefur m.a. streymt til borgarinnar Yonezawa í Yamagata héraði og hafa margir leitað þar til læknis til að ganga úr skugga um hvort þeir hafi orðið fyrir geislun, að sögn Kyodo fréttastoufnnar. Heilbrigðisyfirvöld veita þeim forgang sem bjuggu í innan við 20 km radíus frá kjarnorkuverinu. Yfirvöld í Yamagata og Gunma héröðum bjóða fólkinu húsaskjól í skólum og öðrum opinberum byggingum.