Geislun á hættustig

Þrjár sprengingar í kjarnorkuverinu í Fukushima hafa leitt til geislunar sem valdið getur tjóni á heilsu fólks, að sögn japanskra embættismanna. Naoto Kan forsætisráðherra hefur hvatt fólk í allt að 50 km fjarlægð frá verinu að halda sig innan dyra.

Sprenging varð í kjarnakljúfi tvö í Fukushima Daiichi verinu seint í gærkvöldi að íslenskum tíma, árla dagsins í dag að japönskum tíma. Þar með hefur sprenging orðið í turnhýsi þriggja ofna versins á fjórum dögum. Það hefur valdið ótta um að bráðnun geti orðið í verinu og alvarlegt  kjarnorkuslys hljótist af.

„Núna er geislunin komin á það stig að hún getur verið skaðleg heilsu fólks,“ sagði ráðuneytisstjórinn Yukio Edano. Hann segir það eiga við um verið sjálft en því fjær sem drægi frá stöðinni minnkaði geislunin.

Í sjónvarpsávarpi sagði Kan forsætisráðherra hættuna á frekari geislun „mjög mikla.“ Hvatti hann fólk sem enn dveldist innan bannsvæðisins umhverfis Fukushimaverið að hraða sér á brott og þeir sem byggju milli 20 og 30 km frá verinu ættu að halda sig innan dyra.

Rekstraraðili Fukushimaversins, Tepco, segir að klukkustundar geislun við verið mælist nú átta sinnum meiri en leyfileg hámarksgeislun á heilu ári nemur.

Embættismaður í hlífðarbúningi leiðbeinir konu sem flúið hefur öryggissvæðið í …
Embættismaður í hlífðarbúningi leiðbeinir konu sem flúið hefur öryggissvæðið í Fukushima. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert