Óeirðir á Jólaeyju

Afganskir hælisleitendur á Jólaeyju vonast til að fá landvistarleyfi og …
Afganskir hælisleitendur á Jólaeyju vonast til að fá landvistarleyfi og hæli í Ástralíu. Reuters

Óeirðir brutust út að nýju á hinni afskekktu Jólaeyju við Ástralíu aðfaranótt þriðjudags. Rúmlega 200 hælisleitendur tóku þátt í óeirðunum og eyðilögðu meðal annars sjónvarpsmyndavélar á staðnum.

Aðeins um hálfum sólarhringur var liðinn síðan upp úr sauð í mótmælum um 300 hælisleitenda með þeim afleiðingum að lögregla beitti táragasi til að tvístra hópnum.

„Mótmælin héldu áfram í nótt og við horfum upp á talsverðar eignaskemmdir: nokkrar byggingar urðu fyrir skemmdum, meðal annars vegna elds, og sjónvarpsbúnaður skemmdist," hefur Afp eftir innflytjendaráðherra Ástralíu, Chris Bowen.

Á föstudag brutust 70 hælisleitendur út úr búðunum á Jólaeyju, sem er í Indlandshafi um 2.500 km norðvestur af Perth. 100 til viðbótar brutust út á laugardag.  Allir eru þó snúnir aftur í búðirnar, þar sem 2.539 hælisleitendur, sem flestir koma frá Írak, Afganistan og Sri Lanka, búa við þröngan kost og bíða þess að umsókn þeirra um hæli í Ástralíu verði afgreidd.

Á síðasta ári komu yfir 6.500 flóttamenn til Ástralíu siglandi á bátum og skænum yfir hafið frá Indónesíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert