Suður-Kórea æfir sig fyrir árás

Suður-kóreskir hermenn á æfingu.
Suður-kóreskir hermenn á æfingu. Reuters

Suður-Kóreumenn hófu í dag fyrstu heræfingar ársins, sem miða að því að búa herinn undir að verjast loftárásum og langdrægum sprengjum frá Norður-Kóreu. Umferð var stöðvuð í miðborg Seoul í dag sem hluti af æfingunni og gangandi vegfarendum smalað inn í loftvarnarbyrgi eftir að almannavarnarflautur fóru af stað til að láta vita af æfingunni, sem stóð í 15 mínútur.

Yfirvöld segja að æfingin eigi að auka meðvitund almennings um nauðsyn þess að vera undirbúin óvænta árás frá Norður-Kóreu. 16 orrustuflugmenn tóku þátt í æfingunni og 177 herbílar voru sendir út á götur Seoul og annarra borga, í fyrsta skipti frá 1875.

Í dag barst yfirvöldum í Seoul einnig beiðni frá Pyongyang um að sendir yrðu til baka 27 af 31 norður-kóreskum sjómönnum sem rak yfir landamærinn fyrr í mánuðinum. Sameiningarráðuneyti Suður-Kóreu hefur samþykkt að senda þá til baka.

Fjögur úr hópnum, tveir karlar og tvær konur, hafa óskað sérstaklega eftir því að fá að verða eftir í Suður-Kóreu. Yfirvöld Norður-Kóreu neita þessu og segja suðrið beita fjórmenningana þrýstingi til að espa til illinda.  Norður-Kórea krefst þess að komið verði á fundi með fjórmenningunum og fjölskyldum þeirra í norðri þar sem þau staðfesti í eigin persónu að þau vilji ekki koma aftur heim. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert