Fimmtán voru dæmdir til fangelsisvistar við héraðsdóminn í Osló í dag í hinu svokallaða „Plastic Fantastic máli“, sem er eitt umsvifamesta fjársvikamál Noregs á síðari árum.
Dæmt var fyrir fjársvik sem nema rúmum 12 milljónum norskra króna, en fé var svikið út úr 50 norskum auðmönnum. Brotin áttu sér stað 2006 til 2009.
Þetta kemur fram á vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten.
Svikahrapparnir gáfu út fölsuð skilríki og fengu gjaldkera til að millifæra upphæðir á reikning í öðrum banka. Þeir tóku síðan út smáar upphæðir mörgum sinnum til að vekja engar grunsemdir. Þeir voru dæmdir í mislanga fangelsisvist; allt frá 75 dögum til þriggja og hálfs árs.
Höfuðpaurinn í málinu er ennfremur sakaður um mannrán og fjárkúgun.