Bandaríska sendiráðið í Tókýó hefur hvatt landa sína, sem búa innan 50 km svæðis frá kjarnorkuverinu í Fukushima, til að yfirgefa heimili sín og leita skjóls annars staðar. Bandaríski herinn hefur gefið út samskonar viðvörun. Fleiri erlend ríki hafa gert slíkt hið sama um þegna sína, td. Bretar og Frakkar.
Bandaríkjamenn ákváðu þetta eftir að hafa vegið og metið stöðuna í kjarnorkuverinu. Um stærra svæði er að ræða en Japanir hafa gefið út viðvaranir fyrir. Erfiðlega hefur gengið að ráða við leka á geislavirkum efnum frá Fukushima verinu. Viðbúnaður í björgunarstörfum hefur verið aukinn til að kæla niður kjarnaofninn í verinu. Öflugar vatnsdælur og -tankar hafa verið fluttir á svæðið en tekist hefur að ráða niðurlögum elds við einn kjarnakljúfinn í kjarnorkuveri nr. 1. Ekkert vatn er nú eftir í kjarnakljúfi fjögur og óttast japönsk stjórnvöld að geislavirknin hafi aukist verulega.