Írar hafa heitið milljón evra, andvirði tæplega 162 milljóna króna, til hjálparstarfs í Japan í kjölfar hamfaranna þar. Að sögn utanríkisráðherra Íra var það gert í kjölfar hjálparbeiðni japanskra stjórnvalda til Evrópulanda.
„Skali neyðarástandsins reynir á ystu þolmörk almannavarnakerfisins í Japan. Japanir eru í raun að glíma við þrjú neyðarástönd í einu, jarðskjálftann, flóðbylgjuna og kjarnorkuváina,“ sagði Eamon Gilmore, utanríkisráðherra Írlands.
Írar hyggjast einnig senda teppi, dýnur og vatnstanka sem eru geymdir í Malasíu og Dúbaí til að bregðast við neyðaraðstæðum.
Japanski rauði krossinn hefur sent 84 læknateymi með 735 starfsmönnum til svæðanna sem lentu í hamförunum.