Neyðarástandið í Fukushima-kjarnorkuverinu hefur beint sjónum heimsins aðallega að kjarnakljúfum versins en nú hefur önnur og jafnvel meiri hætta komið upp á yfirborðið en það eru vatnstankar með notuðum kjarnorkueldsneytisstöngum.
Tankarnir sem eru um 14 metra djúpir eru notaðir til að geyma notaðar eldsneytisstengur sem hafa verið teknar úr kjarnakljúfunum en eru enn mjög geislavirkar.
Þær eru settar í vatn til kælingar í mörg ár þar til þær hafa kólnað nægilega til að hægt sé að koma þeim í geymslu.
AFP-fréttastofan greinir frá því að vatnið í einum af þessum tönkum sé að gufa upp vegna hitans af stöngunum og hitastigið fari stígandi í tveimur öðrum vegna þess að kælikerfi þeirra bilaði í flóðbylgjunni á föstudag að sögn franskra sérfræðinga.
Þrátt fyrir örvæntingafullar tilraunir til þess að fylla á tankana gætu þeir tæmst og stangirnar komist í snertingu við andrúmsloftið. Gerist það gætu eldsneytisstangirnar hitnað svo mikið að þær bráðni eða það kvikni í þeim.
Geislun af slíkum hörmungum gæti orðið banvæn sem myndi gera starfsmönnum ókleift að nálgast tankana til þess að skerast í leikinn.
Geislun beint út í loftið
Hættan nær hins vegar lengra en til kjarnorkuversins sjálfs og verkfræðinga og stafsmanna sem reyna að berjast við ástandið þar.
Tankurinn sem staðsettur er hjá kjarnakljúfi númer 4 og er í verstu ástandi hefur ekki lengur neina vörn gegn geislun. Byggingin utan um kljúf númer 4 skemmdist í sprengingum og eldi. Það þýðir að geislavirk efni sem eldsneytisstangirnar gefa frá sér gætu farið beint út í andrúmsloftið.
Ólíkt kjarnakljúfinum sjálfum er tankurinn fyrir utan hlífðarkápuna sem er úr þykku stáli og steinsteypu og er hönnuð til þess að hafa hemil á leka.
Kjarnorkuöryggisstofnun Frakklands lýsti í dag ástandinu á tankinum í kljúfi númer 4 sem meiriháttar áhyggjuefni.
„Næstu 48 klukkustundir munu ráða úrslitum. Ef ekki verður bætt á vatnið verða eldsneytisstangirnar berskjaldaðar innan nokkurra daga. Ef tankurinn tæmist mun það enda með því að stangirnar bráðna. Ef þetta gerist yrði geislunin sem slyppi út mun meiri en hingað til,“ segir Thierry Charles, yfirmaður Geislavarna- og kjarnorkuöryggisstofnunnar Frakklands.
Í tilkynningu sem gefin var út í morgun sagði stofnunin að vatnið í tankinum í byggingu númer fjögur væri sjóðandi.
Komust ekki að vatnstanknum
Á þriðjudag sagði stofnunin að starfsmenn hafi ekki getað nálgast vatnstank númer fjögur vegna of mikillar geislunar í lofti sem mældist um 400 millisievert (mSv) á klukkustund. Sumir sérfræðingar telja að einn skammtur af 100 mSv auki líkurnar á nokkrum tegundum af krabbameini.
Virt samtök vísindamanna í Bandaríkjunum sögðu á vefsíðu sinni að vatnstankur númer 4 væri sérstakt vandamál vegna þess að ekki er lengra liðið en síðan í desember að eldsneytisstangirnar voru fjarlægðar.
„Þær eru enn mjög geislavirkar og skapa meiri hita en stangirnar í hinum vatnstönkum í verinu. Jafnvel þó að vatnsborðið sé við topp stanganna þá myndi geislunin sem manneskja sem stæði við bakka vatnstanksins yrðir fyrir á innan við mínútu vera nógu mikil til þess að drepa hana,“ sagði á heimasíðu samtakanna.
Hitinn eykst einnig smátt og smátt í vatnstönkunum hjá kjarnakljúfum númer 5 og 6. Ef ekkert verður að gert gæti vatn þar einnig byrjað að sjóða á fáum dögum.
Franska geislavarnastofnunin sagði að hún hefði engar upplýsingar um ástand vatnstankanna hjá kjarnakljúfum númer 1, 2 og 3 en byggingarnar utan um þá hafa einnig skemmst í vetnissprengingum síðustu daga.
Ýmsar upplýsingar um kjarnorkuváina í Fukushima-verinu má nálgast á heimasíðu Geislavarna ríkisins.