Fréttaskýring: Ný hætta í Fukushima

mbl.is/Rebekka

Neyðarástandið í Fukus­hima-kjarn­orku­ver­inu hef­ur beint sjón­um heims­ins aðallega að kjarna­kljúf­um vers­ins en nú hef­ur önn­ur og jafn­vel meiri hætta komið upp á yf­ir­borðið en það eru vatnstank­ar með notuðum kjarn­orku­eldsneyt­is­stöng­um.

Tank­arn­ir sem eru um 14 metra djúp­ir eru notaðir til að geyma notaðar eldsneyt­is­steng­ur sem hafa verið tekn­ar úr kjarna­kljúf­un­um en eru enn mjög geisla­virk­ar.

Þær eru sett­ar í vatn til kæl­ing­ar í mörg ár þar til þær hafa kólnað nægi­lega til að hægt sé að koma þeim í geymslu.

AFP-frétta­stof­an grein­ir frá því að vatnið í ein­um af þess­um tönk­um sé að gufa upp vegna hit­ans af stöng­un­um og hita­stigið fari stíg­andi í tveim­ur öðrum vegna þess að kæli­kerfi þeirra bilaði í flóðbylgj­unni á föstu­dag að sögn franskra sér­fræðinga.

Þrátt fyr­ir ör­vænt­inga­full­ar til­raun­ir til þess að fylla á tank­ana gætu þeir tæmst og stang­irn­ar kom­ist í snert­ingu við and­rúms­loftið. Ger­ist það gætu eldsneyt­is­stang­irn­ar hitnað svo mikið að þær bráðni eða það kvikni í þeim.

Geisl­un af slík­um hörm­ung­um gæti orðið ban­væn sem myndi gera starfs­mönn­um ókleift að nálg­ast tank­ana til þess að sker­ast í leik­inn.

Geisl­un beint út í loftið

Hætt­an nær hins veg­ar lengra en til kjarn­orku­vers­ins sjálfs og verk­fræðinga og stafs­manna sem reyna að berj­ast við ástandið þar.

Tankur­inn sem staðsett­ur er hjá kjarna­kljúfi núm­er 4 og er í verstu ástandi hef­ur ekki leng­ur neina vörn gegn geisl­un. Bygg­ing­in utan um kljúf núm­er 4 skemmd­ist í spreng­ing­um og eldi. Það þýðir að geisla­virk efni sem eldsneyt­is­stang­irn­ar gefa frá sér gætu farið beint út í and­rúms­loftið.

Ólíkt kjarna­kljúf­in­um sjálf­um er tankur­inn fyr­ir utan hlífðar­káp­una sem er úr þykku stáli og stein­steypu og er hönnuð til þess að hafa hem­il á leka.

Kjarn­orku­ör­ygg­is­stofn­un Frakk­lands lýsti í dag ástand­inu á tank­in­um í kljúfi núm­er 4 sem meiri­hátt­ar áhyggju­efni.

„Næstu 48 klukku­stund­ir munu ráða úr­slit­um. Ef ekki verður bætt á vatnið verða eldsneyt­is­stang­irn­ar ber­skjaldaðar inn­an nokk­urra daga. Ef tankur­inn tæm­ist mun það enda með því að stang­irn­ar bráðna. Ef þetta ger­ist yrði geisl­un­in sem slyppi út mun meiri en hingað til,“ seg­ir Thierry Char­les, yf­ir­maður Geislavarna- og kjarn­orku­ör­ygg­is­stofn­unn­ar Frakk­lands.

Í til­kynn­ingu sem gef­in var út í morg­un sagði stofn­un­in að vatnið í tank­in­um í bygg­ingu núm­er fjög­ur væri sjóðandi.

Komust ekki að vatnstankn­um

Á þriðju­dag sagði stofn­un­in að starfs­menn hafi ekki getað nálg­ast vatnstank núm­er fjög­ur vegna of mik­ill­ar geisl­un­ar í lofti sem mæld­ist um 400 mill­isievert (mSv) á klukku­stund. Sum­ir sér­fræðing­ar telja að einn skammt­ur af 100 mSv auki lík­urn­ar á nokkr­um teg­und­um af krabba­meini.

Virt sam­tök vís­inda­manna í Banda­ríkj­un­um sögðu á vefsíðu sinni að vatnstank­ur núm­er 4 væri sér­stakt vanda­mál vegna þess að ekki er lengra liðið en síðan í des­em­ber að eldsneyt­is­stang­irn­ar voru fjar­lægðar.

„Þær eru enn mjög geisla­virk­ar og skapa meiri hita en stang­irn­ar í hinum vatnstönk­um í ver­inu. Jafn­vel þó að vatns­borðið sé við topp stang­anna þá myndi geisl­un­in sem mann­eskja sem stæði við bakka vatnstanks­ins yrðir fyr­ir á inn­an við mín­útu vera nógu mik­il til þess að drepa hana,“ sagði á heimasíðu sam­tak­anna.

Hit­inn eykst einnig smátt og smátt í vatnstönk­un­um hjá kjarna­kljúf­um núm­er 5 og 6. Ef ekk­ert verður að gert gæti vatn þar einnig byrjað að sjóða á fáum dög­um.

Franska geislavarna­stofn­un­in sagði að hún hefði eng­ar upp­lýs­ing­ar um ástand vatnstankanna hjá kjarna­kljúf­um núm­er 1, 2 og 3 en bygg­ing­arn­ar utan um þá hafa einnig skemmst í vetn­is­spreng­ing­um síðustu daga.

Ýmsar upp­lýs­ing­ar um kjarn­orku­vá­ina í Fukus­hima-ver­inu má nálg­ast á heimasíðu Geislavarna rík­is­ins.

Byggingar utan um kjarnakljúfana í Fukushima skemmdust margar í spreningum …
Bygg­ing­ar utan um kjarna­kljúf­ana í Fukus­hima skemmd­ust marg­ar í spren­ing­um síðustu daga. Reu­ters
Ein af sprenginunum í Fukushima.
Ein af spreng­in­un­um í Fukus­hima. Reu­ters
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka