Bjargaði nemendum frá flóðbylgju

Japanska borgin Ofunato fór illa út úr hamförunum.
Japanska borgin Ofunato fór illa út úr hamförunum. Reuters

Breskum kennara hefur verið hampað sem hetju í Japan eftir að hann kom fjörutíu og tveimur nemendum sínum í skjól rétt áður er flóðbylgja skall á norð-austurhluta landsins á föstudag.

Robert Bailey, sem er 27 ára að aldri, var að eigin sögn agndofa af skelfingu þegar flóðbylgjan nálgaðist en hann hafði einungis átta mínútur til þess að koma nemendunum á öruggan stað. „Í fyrstu heyrðum við undarlegan hvell, og síðan kom ofsafenginn skjálfti. Ég vísaði nemendunum út á hafnarboltavöll svo þeir yrðu ekki fyrir fjúkandi braki,“ sagði Bailey, sem hefur búið í japönsku borginni Ofunato í fjögur ár. Almannavarnaflautur sem vöruðu íbúa Ofunato við væntanlegri flóðbylgju fóru í gang.

Bailey leit til sjós og sá einungis móðu. „Þetta hefur örugglega verið úði frá flóðbylgjunni, en þetta var svo ógnvekjandi og furðulegt. Það var eins og það hefði kviknað bál á sjónum, og fyrir ofan það var gríðarstórt, streymandi, hvítt reykjarský. Í því gat ég séð þúsund hluti, á floti. Ætli þetta hafi ekki verið byggingar, skip, bílar.“

Nemendurnir fjörutíu og tveir grétu og föðmuðu hvorn annan er flóðbylgjan kom nær. „Við vissum ekki hvort við værum örugg. Það eina sem við gátum gert var að fylgjast með henni koma nær okkur og biðja um að við værum nægilega hátt upp til þess að okkur yrði borgið.“ Flóðbylgjan skall ekki á hópinn en aðrir nemendur skólans, hundrað og sjötíu talsins, voru ekki svo lánsamir, þeirra er allra saknað.

Bailey átti ekki að mæta í skólann þennan umrædda dag, en fór samt sem áður til þess að kenna nemendum sínum að leika krikket. Hann hefur ekki í hyggju að yfirgefa landið þrátt fyrir hörmungarnar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert