Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að ef Sameinuðu þjóðirnar samþykki flugbann yfir Líbíu þá verði menn að gera loftárásir á hernaðarlega mikilvæg skotmörk í landinu til að draga úr hernaðarmætti hersveita Gaddafis Líbíuleiðtoga.
Alþjóðasamfélagið íhugar nú að grípa til að hertra aðgerða til að vernda óbreytta borgara og setja þrýsting á Gaddafi.
„Flugbann kallar á það að gripið verði til ákveðinna aðgerða til að vernda flugvélar og flugmenn, m.a. með því að gera sprengjuárásir á varnarkerfi Líbíu,“ sagði Clinton.
Hún segir að innan SÞ sé nú rætt um að ríki hafi heimildir á breiðum grundvelli til að framfylgja þeim aðgerðum sem SÞ komi til með að samþykkja. Clinton segir að ekki sé verið að ræða um að senda landgönguliða inn í Líbíu.
Clinton er í opinberri heimsókn í Túnis og er þetta fyrsta heimsókn hennar til landsins frá því mótmælendur komu leiðtoga landsins frá völdum í upphafi ársins.