Hert hefur verið á tilraunum til að kæla ofnana í kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan til að stemma stigu við útgeislun og draga úr hættu á bráðnun ofna og eldsneytisstanga. CH-47 Chinook herþyrlur flugu fjórar ferðir hver áður en áhafnir þeirra voru hvíldar til að draga úr hættu á heilsutjóni þeirra af völdum geislavirkni.
Gerðar voru tilraunir til að varpa sjó yfir verið í Fukushima í gær en var fljótlega hætt vegna geislavirkni. Hafist var handa að nýju upp úr miðnætti að íslenskum tíma, klukkan 9:48 að staðartíma í Japan í morgun. Einnig stóð til að dæla með öflugum vatnsbyssum.
Þess er vænst að koma megi á rafmagni í lag í Fukushimaverinu í dag, en það er forsenda þess að koma eigin kælikerfi versins í gang aftur eftir tjón sem varð á því í flóðbylgjunni.
Formlega hefur verið staðfest, að rúmlega 5.000 manns hafi farist í flóðbylgjunni sem gekk á land í Japan í kjölfar 9 stiga jarðskjálfta sl. föstudag. Þá er 8.600 manns enn saknað.