Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbíu, segir að gerð verði árás á Benghazi, næststærstu borg Líbíu í nótt. Hann segir að þeir sem leggi niður vopn verði ekki refsað.
„Við munum svæla svikarana burt frá Benghazi,“ sagði Gaddafi í viðtali við ríkissjónvarpið í Líbíu. „Þeir sem gefast upp og leggja niður vopn verður bjargað.“
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ræðir í kvöld um að setja flugbann á Líbíu. Arababandalagið hefur hvatt til þess að slíkt bann verði sett á. Það kæmi væntanlega í hlut Nató að framfylgja slíku banni, en leiðtogar þess hafa einmitt sett það sem skilyrði að öryggisráðið hafi áður samþykkt ályktun um flugbann.
AFP fréttastofan hefur eftir ónafngreindum frönskum sendimönnum, að hugsanlega muni öryggisráðið heimila loftárásir á Libíu.