Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld að heimila loftárásir á Líbíu, en Muammar Gaddafi, leiðtogi Líbíu, hefur hótað að hefja árásir á Benghazi í nótt. Tíu þjóðir studdu ályktun um loftárásir, en fimm sátu hjá.
Í ályktun öryggisráðsins er veitt heimild til að grípa til „allra nauðsynlegra aðgerða“ til að koma á flugbanni, verja óbreytta borgara í Líbíu og knýja her Gaddafi til að semja um vopnahlé. Ályktunin gerir hins vegar ekki ráð fyrir landhernaði gegn stjórn Gaddafi.
Kínverjar og Rússar voru í hópi þeirra þjóða sem greiddu ályktun öryggisráðsins ekki atkvæði, en þær notuðu ekki neitunarvald sitt til að koma í veg fyrir að ályktunin yrði samþykkt.
Uppreisnarmenn í Benghazi fögnuðu ályktun öryggisráðsins með því að skjóta af byssum upp í loftið strax og fréttist af niðurstöðu ráðsins.