Reyna að hrinda árás hersveita Gaddafis

Tóm skothylki liggja á jörðinni við Ajdabiya. Á myndinni sjást …
Tóm skothylki liggja á jörðinni við Ajdabiya. Á myndinni sjást þungvopnaðir stjórnarhermenn. Reuters

Hermenn sem hafa  hlaupist undan merkjum og gengið til liðs við uppreisnarmenn hafa tekið sér stöðu við bæinn Ajdabiya. Þar hafa þeir stillt upp skriðdrekum, stórskotavopnum og þyrlu í því augnamiði að hrinda árás hersveita Gaddafis Líbíuleiðtoga.

Fréttaskýrandi breska ríkisútvarpsins í Líbíu segir að þetta sé í fyrsta sinn sem liðhlauparnir mæta stjórnarhernum.

Hann segir að nái hersveitir Gaddafis Ajdabiya þá muni það opna leiðina að Benghazi, sem er næst stærsta borg landsins og höfuðvígi uppreisnarmanna. Ein milljón býr í borginni.

Búist er við því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna muni greiða atkvæði um aðgerðir gegn Líbíu síðar í dag.

Bandaríkin íhuga nú að leggja á flugbann yfir Líbíu, auk þess að íhuga frekari aðgerðir til að stöðva framgöngu hersveita Líbíuleiðtogans.

Þær segjast hafa náð Ajdabiya á sitt vald og að þær muni ráðast á Benghazi, sem er í 160 km frá Ajdabiya.

Uppreisnarmennirnir óttast þjóðarmorð grípi SÞ ekki til aðgerða þegar í stað. Þeir eru ekki jafn vel vopnum búnir og herinn, sem getur m.a. gert loftárásir og hefur þar með yfirhöndina í átökunum.

AP-fréttastofan segir að sveitir Gaddafis hafi nálgast Ajdabiya frá þremur hliðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert