Slapp undan tveimur flóðbylgjum

Björgunarmaður stýrir aðgerðum í Sendai.
Björgunarmaður stýrir aðgerðum í Sendai. Reuters

Indónesíumaðurinn Zahrul Fuadi hefur nú lifað af tvo af fimm stærstu jarðskjálftum í heiminum frá árinu 1900. Árið 2004 slapp hann undan flóðbylgjunni í Indlandshafi sem reið yfir strandlínu Aceh-héraðs. Í kjölfarið flutti hann til Sendai í Japan þar sem flóðbylgjan gekk yfir á föstudag.

„Ég hef lifað af tvennar ótrúlegar náttúruhamfarir. Ég er mjög þakklátur, það hafa ekki margir lent í slíkum hörmungum tvisvar og lifað það af,“ segir Fuadi.

Fyrir sjö árum varð Fuadi, sem er doktorsnemi í verkfræði, að flýja undan flóðbylgjunni sem varð 168 þúsund manns að bana í heimalandi hans. Húsið hans í þorpinu Simpang Mesra í Aceh-héraði á Indónesíu eyðilagðist í hörmungum sem fylgdu í kjölfar jarðskjálfta upp á 9,1 stig.

„Við vorum í húsinu mínum þegar skjálftinn reið yfir. Konan mín, tvö börnin okkar og ég náðum að flýja undan flóðbylgjunni á mótorhjóli. Við fórum mjög langt frá húsinu vegna þess að við vorum svo hrædd,“ segir hann af reynslu sinni árið 2004.

Fuadi vann fyrir Syah Kuala-háskólann í Banda Aceh og flutti fjölskylda hans til Sendai í Japan þegar honum hlotnaðist námsstyrkur til þess að ljúka doktorsnámi sínu í Tohoku-háskólanum í Sendai.

Að þessu sinni var Fuadi í tíma í háskólanum sem er á þremur hæðum þegar jarðskjálftinn sem mældist 9  stig reið yfir á föstudag.

„Þó að byggingin væri aðeins tveggja ára gömul og með stálgrind var ég samt hræddur um að hún myndi hrynja. Ég var hræddur um að skjálftinn væri upp á 10  en það urðu ekki miklar skemmdir á byggingunni.“

Á stúdentagörðunum þar sem hann bjó urðu heldur engar skemmdir á byggingum en innanstokksmunir brotnuðu

„Ég er reyndar hræddari við flóðbylgjur en jarðskjálfta. Ég flúði undan flóðbylgjunni í Aceh á sínum tíma og hélt þá að það væri heimsendir,“ segir Fuadi.

Hefur hann búið í Japan undanfarin sex ár en fjölskyldan slapp þó við flóðbylgjuna þar sem háskólasvæðið er um tuttugu kílómetra frá ströndinni.

Fuadi sneri heim til Indónesíu á þriðjudag en segist ætla að fara aftur til Sendai til þess að klára það sem hann á óunnið þar. „Nú er það kjarnorkugeislunin sem ég óttast,“ segir hann.

Eftir flóðbylgjuna miklu sem gekk yfir Aceh-hérað á Indónesíu árið …
Eftir flóðbylgjuna miklu sem gekk yfir Aceh-hérað á Indónesíu árið 2004. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert