Akio Komiri, framkvæmdastjóri orkufyrirtækisins sem sér um kjarnaofnana í Fukushima-kjarnorkuverinu, brast í grát eftir blaðamannafund sem haldinn var í Fukushima í dag. Á fundinum sagði hann geislavirknina frá verinu vera nægilega sterka til að verða nokkrum íbúum landsins að bana.
Stjórnvöld í Japan hækkuðu í morgun hættustig vegna ástandsins í Fukushima kjarnorkuverinu úr fjórum í fimm. Hættuástandið getur mest orðið sjö á þessum skala. Samkvæmt fimmta stiginu getur ástandið leitt til nokkurra dauðsfalla vegna geislavirkni.
Japanskir kjarnorkusérfræðingar segja stjórnvöld hafa gert lítið úr alvarleika málsins síðustu daga. Ástandið í Fukushima er nú orðið jafn alvarlegt og kjarnorkuslysið sem varð á Thee Mile Island í Pennsylvaniu árið 1979.
Lesa má nánar um blaðamannafundinn og ástandið í Fukushima á Daily Mail.