Líbíumaðurinn Mohammed Nabbous nýtti sér netið til að senda myndskeið um uppreisnina á vefsíðu sína, Libya a-lHurrah, þegar erlendir fjölmiðlar gátu ekki athafnað sig í landinu. Að sögn Dagens Nyheter í Svíþjóð særðist hann illa í skotárás í gær og mun nú vera látinn. Það fysta sem Nabbous sagði á netinu var.
,,Ég er ekki hræddur við að deyja, ég er hræddur við að tapa stríðinu." Eiginkona Nabbous, Sam, skýrði í gær frá því að hann hefði fallið. Nabbous sendi mörg myndskeið frá bardagasvæðum, fyrst í stað sendi hann frá íbúð sinni en síðar frá ráðhúsinu í Benghazi. Notaði hann upphaflega aðeins eina upptökuvél en síðar átta.
,,Hann dó fyrir þennan málstað og við skulum vona að Líbía fái frelsi," sagði eiginkonan sem er barnshafandi. Hún sagðist myndu reyna að halda áfram starfi hans. ,,Þakka ykkur öllum, góðu vinir, biðjið fyrir honum."