Líbíustjórn krafðist þess í kvöld, að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna komi saman til fundar eftir að Vesturveldin beittu flugskeytum og orrustuflugvélum til að gera árásir á skotmörk í Líbíu í dag.
Segir Líbíustjórn, að ályktun öryggisráðsins, sem samþykkt var á fimmtudagskvöld, þar sem meðal annars er sett fram krafa um vopnahlé í átökum stjórnarhersins við uppreisnarmenn, sé ekki lengur í gildi vegna árásanna í dag.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði þjóðarleiðtogum í París í dag, að Al Baghdadi Ali al-Mahmoudi, forsætisráðherra Líbíu, hefði hringt í sig í gærkvöldi og sagt að stjórnvöld í Líbíu ætluðu að verða við kröfum, sem settar voru fram í ályktun öryggisráðsins á fimmtudagskvöld.
Hefði forsætisráðherrann farið fram á það við Ban, að beita sér fyrir því að ekki yrðu gerðar árásir á landið.
„Hann var örvæntingarfullur," sagði Ban við þjóðarleiðtogana á fundinum í dag. Hann sagði að símtalið hefði valdið sér áhyggjum í ljósi þess, að á sama tíma og forsætisráðherrann fullyrti að í gildi væri vopnahlé hefðu hersveitir Líbíustjórnar ráðist á uppreisnarmenn í borginni Benghazi.
Þá sagðist Ban hafa rætt við Múammar Gaddafi, einræðisherra Líbíu, í síma eftir að stjórnarherinn hóf aðgerðir gegn uppreisnarmönnum í febrúar. Sagist Ban hafa efast um það, eftir símtalið, að hægt væri að eiga uppbyggileg samskipti við Gaddafi.