Tugir manna, sem vildu mótmæla stríðsrekstri Bandaríkjanna, voru handteknir við Hvíta húsið í Washington í kvöld. Meðal þeirra var Daniel Ellsberg, sem lak Pentagonskjölunum svonefndu fyrir þremur áratugum.
Mótmælt var víða í Bandaríkjunum í tilefni af því að í kvöld eru átta ár liðin frá því innrásin var gerð í Írak. Mótmælendurnir í Washington fögnuðu ákaft þegar Ellsberg var handtekinn.
Fólkið hélt á mótmælaspjöldum þar sem þess var krafist að bandarískar hersveitir verði fluttar frá Írak. Á öðrum spjöldum var lýst yfir stuðningi við Bradley Manning, hermanninn sem grunaður er um að hafa útvegað uppljóstrunarvefnum WikiLeaks bandarísk leyniskjöl.