Hunangsflugan er skordýr Utah ríkis í Bandaríkjunum, blágreni er ríkistréð og nú er búið að velja ríkisskotvopn, M1911 skammbyssuna, hannaða af John M. Browning.
Alls státar Utah því nú af 25 fylkistáknum en það var repúblikaninn Carl Wimmer, fyrrum lögreglu- og sérsveitarmaður, sem fékk hugmyndina eftir að hann heyrði að löggjafinn í Pennsylvaníu hugðist gera riffil að opinberu skotvopni ríkisins.
M1911 var það skotvopn sem allar deildir bandaríska hersins báru þar til fyrir fimmtán árum síðan en Wimmer valdi byssuna vegna þess að hönnuður hennar var fæddur og uppalinn í Utah.
Ákvörðunin um að velja sérstakt skotvopn ríkisins hefur vakið nokkrar deilur en að sögn Wimmer ætti ekki að líta á vopnið sem verkfæri dauðans heldur verkfæri frelsisins.