Nítján bandarískar flugvélar, þar á meðal þrjár B2 sprengjuflugvélar, tóku þátt í loftárás í dögun á skotmörk í Líbíu.
Kenneth Fidler, talsmaður stjórnstöðvar Bandaríkjahers í Stuttgart, sagði þetta við AFP fréttastofuna í dag. Hann sagði, að aðgerðunum væri ætlað að skapa skilyrði til að framfylgja flugbanni.
Fidler sagði, að F-15 og F-16 orrustuflugvélar hefðu tekið þátt í aðgerðunum í morgun, sem beindust gegn loftvarnastöðvum Líbíu. Hann sagði einnig, að Bretar og Bandaríkjamenn hefðu nú skotið 124 Tomahawk stýriflaugum á skotmörk í Líbíu.
Michael Mullem, yfirmaður bandaríska herráðsins, sagði í dag að hersveitir Múammars Gaddafis, einræðisherra Líbíu, hefðu hætt sókn sinni í átt að borginni Benghazi, sem uppreisnarmenn ráða.
Mullen sagði, að fyrsti áfangi aðgerðanna til að framfylgja flugbanni yfir Líbíu, hefði tekist vel. Það sama sagði talsmaður breska varnarmálaráðuneytisins við Sky sjónvarpsstöðina.
Sérfræðingar eru nú að fara yfir gögn um árásirnar í gærkvöldi. Mullen sagði, að markmið bandalagshersins í Líbíu geti náðst. Meðal þeirra takmarka sé ekki að koma Múammar Gaddafi frá völdum en hann verði að taka ákvarðanir um eigin framtíð.