Arababandalagið sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem hernaðaraðgerðir vestrænna ríkja í Líbíu eru gagnrýndar. Vika er síðan bandalagið hvatti Sameinuðu þjóðirnar til að banna flug yfir landinu.
„Það sem er að gerast í Líbíu er í andstöðu við tilgang þess að setja loftferðabann en það sem við viljum er að vernda almenna borgara,“ sagði Amr Mussa, framkvæmdastjóri Arababandalagsins.
Inngrip ríkja í Líbíu er það umfangsmesta í Arabaríkjunum síðan Bandaríkjamenn réðust inn í Írak 2003. Í þetta skipti taka nokkur Arabaríki þátt í aðgerðunum. Sameinuðu arabísku furstadæmin leggja til orrstuflugvélar og leiðtogar Jórdaníu, Marokkó og Katar tóku þátt í leiðtogafundi í París um aðgerðirnar í gær.