Sameinaður vilji heimsins

Líbísk ungmenni á vegg við hús Múammars Gaddafis í Tripoli. …
Líbísk ungmenni á vegg við hús Múammars Gaddafis í Tripoli. Fólk myndaði mannlegan skjöld um húsið til að verja það fyrir sprengjuárásum. Reuters

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að Múammar Gaddafi, einræðisherra Líbíu, fyndi fyrir sameiginlegum vilja alþjóðasamfélagsins í þeim hernaðaraðgerðum, sem hófust gegn Líbíu í gær.

„Hann hefur drepið eigin landsmenn. Hann lýsti því yfir að hann myndi fara hús úr húsi og drepa alla. Það er óviðunandi," sagði Ban við AFP í París áður en hann lagði af stað í ferð til Egyptalands og Túnis. 

„Ég vona að líbísk stjórnvöld fari að fullu og öllu eftir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, lýsi tafarlaust yfir vopnahléi og grípi til ráðstafana til að tryggja öryggi þjóðarinnar."  

Ban sat í gær leiðtogafund í París þar sem fjallað var um aðgerðir til að framfylgja flugbanni yfir Líbíu. Í kjölfarið hófust hernaðaraðgerðir og var m.a. skotið stýriflaugum á loftvarnastöðvar og sprengjum varpað á flugvelli. 

Ban sagði við blaðamenn í gær, að hann hefði enga trú á því lengur, að Gaddafi gæti sagt sannleikann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert