Bygging í höfuðstöðvum Gaddafis

Ökutæki Líbíuhers springa eftir loftárás í dag.
Ökutæki Líbíuhers springa eftir loftárás í dag. Reuters

Stýriflaugum var að nýju skotið á Líbíu í kvöld. Breska varnarmálaráðuneytið staðfesti að Tomahawk stýriflaugum hefði verið skotið frá kafbáti í Miðjarðarhafi á loftvarnarstöðvar við Tripoli. 

AFP fréttastofan segir, að stjórnstöð í húsaþyrpingu þar sem höfuðstöðvar Múammars Gaddafis, einræðisherra Líbíu eru, hafi eyðilagst þegar flugsleyti lenti á henni.

Byggingin er um 50 metra frá tjaldinu þar sem Gaddafi tekur venjulega á móti gestum. Moussa Ibrahim, talsmaður Líbíustjórnar, sagði við blaðamenn að þetta hefði verið villimannleg sprengjuárás sem gæti hafa banað hundruðum óbreyttra borgara, sem höfðu safnast saman í um 400 metra fjarlægð.

„Vestræn ríki segjast vilja vernda óbreytta borgara og á sama tíma varpa þau sprengjum á byggingar þótt vitað sé að óbreyttir borgarar séu þar samankomnir," sagði hann.   

Líbíustjórn lýsti því yfir í kvöld, að vopnahlé í aðgerðum stjórnarhersins gegn uppreisnarmönnum tæki gildi klukkan 19 í kvöld. Tom Dinilon, þjóðaröryggisráðgjafi Baracks Obama, Bandaríkjaforseta, sagði í kvöld að vopnahléið hefði aldrei tekið gildi eða verið rofið nánast um leið.

Norður-Atlantshafsráðið, æðsta valdastofnun NATO, samþykkti í kvöld hernaðaráætlun til að framfylgja vopnasölubanni sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett á Líbíu. Hins vegar náði ráðið ekki samkomulagi um að framfylgja flugbanni yfir Líbíu í samræmi við ályktun, sem öryggisráð SÞ samþykkti sl. fimmtudag. 

Sendimenn sögðu, að andstaða Tyrkja við að NATO taki þátt í hernaðaraðgerðum í Líbíu sé ástæðan fyrir því að áætlanir um eftirlit með flugbanninu hafa ekki verið samþykktar innan bandalagsins. Gert er ráð fyrir að niðurstaða fáist síðar í vikunni.

NATO-ríkin Frakkland, Bretland og Bandaríkin hafa gert loftárásir á skotmörk í Líbíu frá því í gær. Þær árásir hafa hins vegar ekki verið á vegum NATO.

F-16 orrustuflugvél fer frá flugvelli á Ítalíu í kvöld.
F-16 orrustuflugvél fer frá flugvelli á Ítalíu í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert