Ráðist á stjórnstöð Gaddafis

Stuðningsmaður Gaddafis í rústum byggingarinnar í gærkvöldi.
Stuðningsmaður Gaddafis í rústum byggingarinnar í gærkvöldi. Reuters

Vestrænn embættismaður staðfesti í morgun, að gerð hefði verið árás á stjórnstöð í höfuðstöðvum Múammars Gaddafis, einræðisherra Líbíu, í Tripoli. Stýriflaug var skotið á bygginguna sem er rústir einar.

„Bandalagsríkin eru að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (um flugbann) og í tengslum við það höldum við áfram að ráðast á skotmörk sem eru bein ógn við líbísku þjóðina og getu okkar til að framfylgja flugbanninu," sagði embættismaðurinn.

Byggingin er um 50 metra frá tjaldinu þar sem Gaddafi tekur venjulega á móti gestum. 

Talsmaður Líbíustjórnar sýndi vestrænum blaðamönnum húsarústirnar í gærkvöldi. Enginn var í byggingunni þegar ráðist var á hana.  

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, gaf til kynna í gærkvöldi að Bandaríkjaher muni brátt draga sig í hlé og láta aðra um að stýra aðgerðum en þeim hefur til þessa verið stýrt frá Afríkistjórnstöð Bandaríkjahers í Þýskalandi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert