Japanska lögreglan rannsakar nú hver stal 40 milljónum jena (tæpum 60 milljónum kr.) úr banka í borginni Kesennuma.
Mikil eyðilegging varð í borginni af völdum náttúruhamfaranna, og í Shinkin bankanum slokknaði á öryggiskerfinu með þeim afleiðingum að peningaskápar og öryggishólf opnuðust.
Lögreglan segir að forsvarsmenn bankans hafi tilkynnt um þjófnaðinn í dag.
Flóðbylgja skall yfir bankann þann 11. mars sl. Segir lögreglan að kraftur bylgjunnar hafi slegið út rafmagnið og opnað hólfin. Var því eftirleikurinn auðveldur fyrir þann sem fór inn í bankann og lét greipar sópa.