Undanfarinn áratug hefur íbúum í Detroit í Bandaríkjunum fækkað um fjórðung, en skv. tölum bandarísku hagstofunnar búa nú um 714.000 í borginni. Þeir hafa ekki verið færri í heila öld, eða frá árinu 1910.
Lengi vel var borgin þekkt sem bílaborgin Detroit þar sem nóg var um vinnu. Borgin var á hátindi sínum á á sjötta áratug síðustu aldar, en það er af sem áður var. Þá bjuggu um tvær milljónir í borginni, að því er segir á vef Wall Street Journal.
Nú er erfitt að fá vinnu og í kjölfar fjármálahrunsins lögðust mörg hverfi nánast í eyði. Nú eru tvöfalt fleiri auð hús í borginni en var fyrir 10 árum, eða alls um 80.000 hús. Þar er ríflega fimmtungur alls húsnæðis í borginni.
Segir á vef WSJ að þeldökkir íbúar hafi á sl. tíu árum flutt í unnvörpum úr borginni og í úthverfin. Aldrei í sögunni hafi íbúum borgarinnar fækkað jafn hratt á jafn skömmum tíma.
Embættismenn eiga erfitt með að trúa þessum tölum og hefur Dave Bing, borgarstjóri Detroit, farið fram á endurtalningu.
Alls hafa 237.000 yfirgefið borgina á þessum tíma, þar á meðal 185.000 þeldökkir íbúar og 41.000 hvítir íbúar.
Árið 1950 var Detroit fimmta stærsta borg Bandaríkjanna, á eftir New York, Chicago, Fíladelfíu og Los Angeles. Í kringum 1990 var hún á meðal 10 fjölmennustu borganna. Nú þykir líklegt að hún endi í 19. sæti á eftir Indianapolis og Columbus í Ohio.