Jose Socrates forsætisráðherra Portúgals tilkynnti í kvöld að ríkisstjórn landsins hefði sagt af sér. Ástæðan er sú að frumvarp stjórnarinnar um niðurskurð í ríkisútgjöldum og hækkun skatta var fellt í atkvæðagreiðslu.
Ríkisstjórn Sósíalistaflokksins er minnihlutastjórn sem nýtur aðeins stuðnings 97 þingmanna af 230 sem eiga sæti á þinginu. Allir fimm stjórnarandstöðuflokkarnir greiddu atkvæði gegn tillögunum stjórnarinnar.
Socrates hafði fyrir atkvæðagreiðsluna hótað afsögn og hann gekk á fund forseta landsins í kvöld og tilkynnti honum að ríkisstjórnin hefði sagt af sér.
Á morgun hefst leiðtogafundur Evrópusambandsins þar sem m.a. á að ræða um stöðu evrunnar.
Seðlabanki Evrópu og framkvæmdastjórn ESB tóku þátt í að móta þær tillögur sem felldar voru í þinginu í dag.