Dönsk fjölskylda hefur nú verið í haldi sómalskra sjóræningja í einn mánuð. Blaðamaður Ekstra Bladet fékk að fara um borð í grískt skip sem sjóræningjarnir tóku og nota sem fangelsi fyrir gísla.
Blaðamaður Ekstra Bladet segir að aðbúnaður gíslanna um borð sé slæmur. Hann fékk að vera um borð í fangelsinu fljótandi í sólarhring. Hann sagði að sjóræningjarnir séu stöðugt í vímu af því að tyggja khat en plantan inniheldur örvandi efni.
Óþrifalegt er um borð, kæfandi hiti og ólykt af rotnandi matarleifum og frá úrgangi því daglega er dýrum slátrað um borð.
Sjóræningjarnir virðast hafa unun af að niðurlægja Danina. Þeir eru beittir hótunum og nota ræningjarnir ofbeldishótanir gegn börnum hjónanna til að fá sitt fram.
Fjölskyldan hefur ættarnafnið Quist Johansen og er frá Kalundborg. Sjóræningjarnir krefjast lausnargjalds upp fimm milljónir dollara (574 milljónir ÍKR). Verði það ekki greitt hóta sjóræningjarnir að myrða fólkið. Foringi sjóræningjanna bauðst þó til að láta Danina lausa gegn því að fá að giftast 13 ára dóttur dönsku hjónanna.
Fjölskyldan á ekki fyrir lausnargjaldinu enda sló hún lán fyrir ferðalaginu og veðsetti húseign sína. Sagt er að fjölskyldufaðirinn, Jan Quist Johansen, hafi mikla sektarkennd vegna þess hvernig komið er fyrir fjölskyldu hans. Söfnun er hafin í Danmörku fyrir lausnargjaldinu.
Fjölskyldan var að sigla á skútu á Adenflóa þegar hjónin, börnin þeirra þrjú og tveir gestir þeirra voru tekin höndum og skútunni rænt. Fjölskyldan var flutt á milli þorpa í Sómalíu áður en hún var sett í prísundina um borð í MV Dover.