Hernaður í Líbíu heldur áfram

Frönsk herþota í líbískri lofthelgi.
Frönsk herþota í líbískri lofthelgi. Reuters

Lofthernaður bandamanna í Líbíu hélt áfram í morgun og að sögn talsmanns breska hersins hefur lofther Líbíu nánast verið þurrkaður út.

Herskipafloti NATO er nú við strendur Líbíu. Reyna á að komast að samkomulagi um það í dag hvort NATO taki yfir ábyrgð og skipulagningu á aðgerðunum sem  Bretar, Frakkar og Bandaríkjamenn hafa verið í forsvari fyrir.

JANA fréttastofan, sem er ríkisrekin fréttastofa Líbíu, sagði í morgun að árásir bandamanna á borgina Tajura hefðu kostað fjölda óbreyttra borgara lífið. Að sögn fréttastofunnar var þrívegis ráðist á borgina og segir að í þeirri síðustu hafi verið miðað á björgunarfólk sem reynda að koma særðum til hjálpar. Þetta hefur ekki fengist staðfest af hlutlausum aðilum.

Í Tajura  eru mikilvægustu bækistöðvar líbíska hersins.

Bandarískir embættismenn hafa gefið í skyn að meðlimir í innsta hring Gaddafis  reyni nú að finna leið út úr krísunni sem hefur skapast.

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að aukinn þrýstingur á að Gaddafi færi frá völdum gæti orðið til þess að nánir samverkamenn hans eða jafnvel fjölskyldumeðlimir myndu snúa baki við honum.

Kanadískar herþotur vörpuðu sprengjum á borgina Misrata í nótt og sprengdu upp vopnageymslur. Seint í gærkvöldi skutu skriðdrekar Gaddafis á eina sjúkrahúsið í Misrata, en það hefur verið hæli uppreisnarmanna.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna hvatti alla aðila til vopnahlés í dag, en Öryggisráðið mun koma saman í dag til að ræða aðgerðir í Líbíu.

Sex þjóðir hafa tekið höndum saman um að koma í veg fyrir að Gaddafi takist að koma vopnum um landið um Miðjarðarhafið. Meðal annars eru fimm tyrknesk herskip í eftirliti við strendur Líbíu.

Hingað til er Katar eina Arabaríkið sem hefur lagt aðgerðunum lið með hervaldi. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að bæði Kúvaít og Jórdan styðji aðgerðirnar.

Varnarmálaráðherra Frakklands gaf út þá yfirlýsingu snemma í morgun að loftárásum bandamanna í Líbíu yrði haldið áfram í dag.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert