Segir NATO munu taka við

Tyrkneska ríkissjónvarpið hefur eftir utanríkisráðherra Tyrklands, að fallist hafi verið á kröfur Tyrkja og að NATO muni nú taka við stjórn hernaðaraðgerða í Líbíu.

Öll aðildarríki NATO, 28 að tölu, verða að samþykkja slíkar aðgerðir og Tyrkir höfðu sett ýmis skilyrði sem strandað hefur á.  

„Fallist hefur verið á kröfur okkar um Líbíu og NATO mun nú taka við aðgerðunum," hafði sjónvarpið eftir Ahmet Davutoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.

Ónafngreindur sendimaður sagði, að NATO-ríkin væru að leggja lokahönd á samkomulag um að bandalagið taki yfir stjórnina á aðgerðunum á mánudag eða þriðjudag.  

Deilt hefur verið um það hverjir eigi að stjórna lofthernaðinum í Líbíu. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði á mánudag að Bandaríkjaher myndi aðeins stjórna hernaðinum í nokkra daga til viðbótar og Robert Gates, varnarmálaráðherra landsins, sagði að Frakkar og Bretar eða NATO gætu tekið við þessu hlutverki.

Frakkar og Tyrkir voru andvígir því að NATO taki við stjórn aðgerðanna en nokkur ríki, einkum Bretar og Ítalar, hafa hvatt til að NATO stýri aðgerðunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert