27.500 taldir af

Frá hamfarasvæðunum í borginni Kesennuma í Miyagi sýslu, sem fór …
Frá hamfarasvæðunum í borginni Kesennuma í Miyagi sýslu, sem fór einna verst út úr jarðskjálftunum og flóðbylgjunni sem fylgdi í kjölfarið. Reuters

Yfirvöld í Japan hafa staðfest að 10.000 hafi látist í hamförunum þann 11. mars. 17.500 er saknað og lítil von er til að nokkur finnist á lífi.

Hamfarirnar komu sérstaklega illa niður á eldri kynslóðinni, en tveir þriðju þeirra sem létust eru eldri en 60 ára. 

Tveir japanskir ferðamenn voru sendir á sjúkrahús í Kína í fyrradag, eftir að geislavirkni í þeim mældist langt fyrir ofan þau mörk sem teljast eðlileg.  Fólkið hefur nú verið útskrifað af sjúkrahúsinu og engar líkur eru taldar á því að geislunin hafi haft áhrif á aðra.

Evrópusambandið hefur nú sett hömlur á innflutning matvæla frá Japan og slegist þar í hóp Bandaríkjanna, Rússlands og nokkurra annarra ríkja. Japanir hafa sjálfir lagt niður útflutning á grænmeti og mjólkurvörum frá svæðinu umhverfis kjarnorkuverið í Fukushima.

Aukin  geislavirkni hefur verið mæld í hafi, nálægt kjarnorkuverinu og það hefur vakið ótta um geislamengun í fiski og þangi, sem eru stór hluti af daglegri fæðu Japana.

Á strönd Hunshu eyju, þar sem flóðbylgjan reið yfir, búa 250.000 heimilislausir Japanar í neyðarskýlum og athvörfum. Flestir syrgja þeir látna ættingja og vini. Yfirvegun þeirra og rósemi hefur vakið aðdáun um alla heimsbyggðina.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert