Efast um að Portúgal þurfi aðstoð

Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar.
Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar. Reuters

Forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker, segir að Portúgalar þurfi líklega ekki á fjárhagslegri aðstoð að halda.

Hann er í forsvari fyrir hóp fjármálaráðherra Evrópusambandsríkjanna.

„Ég efast um að Portúgalar muni biðja um fjárhagsaðstoð,“ sagði Juncker í viðtali við þýsku útvarpsstöðina Deutschlandfunk í morgun.

Hann sagði að ástandið í Portúgal væri „afar flókið“ eftir að forsætisráðherra landsins, Jose Socrates, tilkynnti afsögn sína á miðvikudaginn. Hann hafði ekki fengið stuðning við niðurskurð á opinberum útgjöldum.

Óvissan í stjórnarfari landsins varð til þess að tvö alþjóðleg matsfyrirtæki lækkuðu lánshæfismat Portúgala um tvo flokka í gær.

Í gær sagði Juncker á Evrópusambandsráðstefnu í Brussel að Portúgalar yrðu ekki skildir eftir í kuldanum af öðrum Evrópuríkjum.

Hann sagði að færu Portúgalar fram á aðstoð, þá væru 75 milljarðar evra viðunandi fjárupphæð, en hún yrði einungis veitt undir ströngum skilyrðum. Hann sagði að það væri algerlega undir portúgölsku ríkisstjórninni að ákveða hvort aðstoðar væri þörf.

Samkomulag um fjármögnun neyðarsjóðs

Leiðtogar ESB-ríkja náðu í nótt að mestu leyti samkomulagi um ýmsar leiðir til að koma í veg fyrir að skuldakreppa, sem ýmis Evrópulönd lentu í á síðasta ári, endurtaki sig.    

Gert er ráð fyrir að stofna sérstakan 700 milljarða evra neyðarsjóð  til að  hlaupa undir bagga með ríkjum á evrusvæðinu, sem kunna að lenda í skuldavanda og tryggja jafnframt stöðu evrunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert