Fólk beðið um að yfirgefa heimili sín

Japönsk yfirvöld hafa beðið þá sem búa í 20-30 kílómetra fjarlægð frá Fukushima kjarnorkuverinu að yfirgefa heimili sín sjálfviljugir. Áður höfðu yfirvöld beðið fólk um að halda sig innandyra.

Yfirvöld segja að geislavirkni gæti aukist á svæðinu. Embættismenn sögðu í morgun, að vísbendingar væru um að steypukápan utan um kjarnaofn 3 í verinu kunni að hafa brostið en það þýðir að geislavirk efni kunna að leka þar út.

Þetta varð til þess að hætta varð vinnu við Fukushima Dai-ichi kjarnorkuverið þar sem unnið hefur verið dag og nótt við að hindra að kjarnaofnarnir sex bræði úr sér. Grunsemdir um að steypukápan hefði brostið vöknuðu þegar tveir starfsmenn óðu í vatni, sem reyndist 10 þúsund sinnum geislavirkara en eðlilegt mátti teljast. Starfsmennirnir fengu brunasár á fótleggi þegar vatn skvettist á þá fyrir ofan sérstök hlífðarstígvél sem þeir voru í.

Hundruð þúsunda íbúa, sem bjuggu innan 20 kílómetra frá kjarnorkuverinu, voru fluttir af heimilum sínum fljótlega eftir að verið varð fyrir skemmdum í jarðskjálftanum þann 11. mars.

Verði íbúar ekki við þessum tilmælum, er ekki útilokað að þeir verði fluttir nauðugir á brott.

Fukushima kjarnorkuverið í Japan.
Fukushima kjarnorkuverið í Japan. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert