Lýtalæknir Muammars Gaddafis, leiðtoga Líbíu, segir að hann hafi fjarlægt kviðfitu af maga Gaddafi og sprautað henni í andlit hans. Hann segir að Gaddafi hafi viljað vera sléttur og fallegur.
Gaddafi fór í lýtaaðgerð árið 1995, en í henni var hár grætt í höfuðleður hans og fita var tekin af kviðnum og sprautuð í andlit hans. Þetta segir Liacyr Ribeiro, brasilískur lýtalæknir, í samtali við AP.
Læknirinn segir að Gaddafi hafi sagt sér að hann væri búinn að vera við völd í 25 ár og hann vildi ekki að unga fólkið í landinu liti á hann sem gamlan mann. Læknirinn segist hafa stungið upp á hefðbundinni andlitslyftingu, en Gaddafi hafi hafnað því vegna þess að hann óttaðist að það sæist að hann hafi gengist undir slíka aðferð.