Þátttakendum í mótmælum gegn aðgerðum bresku ríkisstjórnar fjölgar mjög ört í miðborg London. Talið er að fjöldi mótmælenda sé þegar farinn að nálgast 200 þúsund. Allt hefur þó farið friðsamlega fram, en vel á fimmta þúsund lögregluþjóna vakta nú gönguleiðina frá ánni Thames upp að Hyde Park.
Mótmælendur eru á öllum aldri, allt frá stúdentum sem eru uggandi um atvinnumöguleika sína og upp í eldri borgara, sem óttast að lífskjör sín muni skerðast.
Formlegur mótmælafundur fer fram í Hyde Park, en á meðal þeirra sem flytja munu ræðu eru leiðtogi Verkamannaflokksins, Ed Miliband. Mótmælendum hugnast illa fyrirhugaðar niðurskurðaraðgerðir, en þeir mótmæla einnig miklu atvinnuleysi og skattahækkunum.
George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, kynnti fjárlög í vikunni sem er að líða. Menntamálaráðherrann Michael Gove segir mótmælin skiljanlega. Það sé hins vegar óumflýjanlegt að taka erfiðara ákvarðanir í ríkisfjármálum, þar sem skuldastaðan sé slæm.